> Lovísublogg
Lovísublogg
Hakuna Matata


6.12.03  

OOOOOHHHHH ég trúi ekki að það séu ellefu dagar þar til ég er búin í prófum! Er alveg að morkna hérna. Las til að verða fimm í morgun og var orðin svo kexrugluð á endanum að ég var farin að hlæja að glósunum. Ég fékk nefnilega "lánaðar" glósur af netinu og þar koma oft ansi fyndnar villur fyrir. T.d. þrílas ég eina setningu og fattaði svo misskilninginn og ætlaði alveg að verða vitlaus af hlátri. Setningin byrjaði á einhverri kenningu og endaði svo svona ...manneskjan er forvitin í eðlisfræði. Ég giska á að þetta eigi að vera forvitin að eðlisfari. Svo þarf að sýna börnum mikla ásthúð. Þegar að þessu var komið ákvað ég að loka bókinni og fara að sofa í hausinn á mér.

En fyrst las ég e-mailið mitt og þar var þetta bréf að finna og hló ég alveg jafn mikið að því og ásthúðinni;)

Kæri Jólasveinn

Hlustaðu nú litli feiti ljóti dvergur.
Ég hef hjálpað þér öll þessi ár og verið besta og fullkomnasta jólagjöfin , komið fram í misjöfnum veðrum í efnislitlum gerfibaðfötum og ég get sagt þér það hefur oft verið hræðilega kalt. Mér finnst leiðinlegt að segja það en jólasveinn ég
finn mig ekki í þessu lengur! Nú er kominn tími til að breyta til um þessi jól. Ef það gerist ekki mun ég sjá til þess að að það verði haldnar Barbie brennur um allt land ég gæti nú trúað að þér þyki fnykurinn af þeirri brennu ekki eftirsóknarverður.

Jæja jólasveinn hér er þá óskalistinn í ár.:


Mig langar í:

1. Mjúkar bómullar stuttbuxur, og stóran víðan háskólabol í stíl. Ég er orðin hundleið á að líta út eins og mella. Er engin
takmörk á því hve baðfötin geta verið lítil og vesældarleg? Og meðal annarra orða. veistu hvernig það er að hafa
nylonbuxur með frönskum rennilás inni í rassaborunni?

2. Raunveruleg nærföt sem auðvelt er að fara í. Helst hvít. Hvaða bölvaður asni ákvað að framleiða þessa nærfataeftirlíkingu sem festist við húðina á mér þannig að það lítur út fyrir að ég sé með appelsínuhúð.

3. Svo vil ég fá alvöru KARLMANN! T.d. Action man. Ég er orðin svo hundleið á þessum væmna aumingja honum Ken. Og svo er hann kominn með eyrnalokk ekki skánar hann við það. Ég þjáist að vera nálægt honum. Í guðs bænum gætir þú ekki skapað hann líffræðilega rétt og með tilheyrandi tólum.

4. Ég óska mér að fá handleggi sem ég get beygt svo ég geti ýtt áðurnefndum Ken-ræfli frá mér þegar búið er að útbúa
hann rétt .

5. Ég vil fara í brjóstaMINNKUN mér er alveg sama hvort þú þarft að snúa upp á handlegginn á einhverjum lækni! Ég vil fara í brjóstaminnkun

6. Íþróttabrjóstahaldara til að nota þangað til ég fer í brjóstaminnkun.

7. Nýtt starf. Dýralæknir eða poppstjarna er algjörlega out. Hvernig líst þér á að ég verði kerfisfræðingur, verðbréfasali
eða vinni við almannatengsl.

8. Nú verður þú að fara að skapa 2004 karakterinn. T.d. fyrirtíðaspennu Barbie, fylgihlutir með henni gætu verið
poki með kartöfluflögum og lítil askja með súkkulaðibitakökum eða rjómaís. Nú eða Hættu að reykja Barbie með Nikotín
plástri og tyggjó.

9. Að lokum! það er nú kominn tími til að ég fái að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu (Mattel) Ég er búin að vera hér í 42 ár svo mér finnst þetta ekki ósanngjörn krafa. Ég meina það Jóli

Jæja þetta er nú það sem ég fer fram á. Þegar tekið er tillit til verðmætaskapandi framlags míns til samfélagsins finnst
mér þetta sanngjarnar kröfur. Ef þú gengur ekki að þeim skaltu bara finna þér einhverja gæru til að taka við um næstu jól. Svo einfalt er það.


Þín einlæg Barbie.

Lovísa skrifaði | 15:37
|  

Eintómar gleðifréttir í dag! Og ég sem er í prófum, hvað er að gerast?
Gæludýrin okkar Hildar eru flutt út. Jább, kanínurnar hafa ákveðið að flytja sig í eitthvað hljóðeinangrað hús nálægt Hvalfjarðargöngunum til að leyfa Reykvíkingum að sofa meðan tilraunir þeirra til fjölgunar mannkynsins eiga sér stað. Einhver Heiða flutt inn í staðinn og ég hef ekki einu sinni pirrað mig yfir því í dag að geta ekki lært fyrir innflutningum hennar. Augljóslega þurft að gera miklar breytingar því borvélin og hamarinn er búinn að vera á fullu í dag hjá henni.

Svo eignaðist hún Svana mín stelpu í gær. Litla daman var 15 merkur og 52 sentimetrar og held ég bara að þeim báðum heilsist alveg ágætlega. Get ekki beðið eftir að klára the prófs og kíkja svo á prinsessuna og fara svo heim í jólafrí! Já, ég lofaði mömmu víst niðurtalningu og í dag, (ef við segjum að það sé ennþá 5. des) eru einungis 13 dagar í heimför:) Mikið verður það nú gott, að slaka aðeins á heima!

Svo heyrði ég í dag að hann Jenni frændi er tilnefndur sem besti söngvari ársins á íslensku tónlistarverðlaununum. Með honum í flokki eru ekki ómerkari menn en Bo Halldórs, Stebbi Hilmars, Jónsi í Svörtum fötum og Krummi í Mínus. Verð nú að segja að mér finnst þetta ansi flott hjá Jenna að ná þessu:) Þeir Brain Police félagar eru svo tilnefndir í fleiri flokkum og verður ansi gaman að sjá hvort þeir fái verðlaun í einhverjum flokki.

Ætla að halda áfram í þroskasálfræðinni, hún er svo... þroskandi ehhh!

Lovísa skrifaði | 01:55
|

4.12.03  

Hvað er eiginlega málið með heimasímanúmerið mitt? Að meðaltali er hringt hingað heim svona 4 sinnum á dag og þá er það fólk sem er að hringja í skakkt númer. Í 90% tilvika byrja símtölin svona
Ég: Halló
Einhver: Já, er samkoma í kvöld?
Ég: Ha?
Einhver: Er samkoma í kvöld?
Ég: Samkoma?
Einhver: Já er þetta ekki hjá Hvítasunnukirkjunni?
Ég: öööööö nei!

Var nú reyndar ansi fyndið í fyrradag þegar síminn hringdi fyrir allar aldir og Hildur sem er svo heppin að sofa í stofunni svaraði.
Hildur: Halló (röddin álíka mygluð og nokkurra daga gömul súrmjólk)
Einhver: Heyrðu hvenær byrjar samkoman í kvöld
Hildur: Þetta er EKKI Hvítasunnukirkjan og ég veit EKKI hvenær samkomur eru hjá þeim en með þessu áframhaldi neyðist ég til þess að fara að halda samkomur heima hjá mér.

Þess ber kannski að geta að Hvítasunnusöfnuðurinn skipti um símanúmer fyrir sjö mánuðum síðan þannig að þetta eru greinilega ekki virkir félagar sem hringja hér dag og nótt og biðja um einhverjar samkomur.

Merkilegt hvað ég er búin að vera dugleg að blogga síðustu 3 daga... Ætli próftíðin hafi þar einhver áhrif ;)
Heimferð eftir tvær vikur, en fyrst, þroskasálfræði...

Lovísa skrifaði | 14:24
|

3.12.03  

Já, eitt búið, fjögur eftir! Er milli vonar og ótta með þessa helv... stæ. Allir að krossa putta og vona að ég hafi náð. Ég nenni ekki að hafa þetta hangandi yfir mér þar til í ágúst á næsta ári. Því eins og flestir sem þekkja mig vita, kem ég til með að geyma lærdóminn þar til tveimur dögum fyrir upptökupróf (en ég ætla ekkert í svoleiðis...)
Jámm, þroskasálfræðin næst, ekki nema 250 blaðsíður af glósum sem ég prentaði út (ekki bjuggust þið við að ég hefði glósað svona mikið sjálf?) þannig að nú verður sko nóg að lesa!

Fór í dag og skoðaði nýjasta fjölskyldumeðliminn. Jiiiii ég er ekki frá því að það hafi bara heyrst Jingle Bells einhvers staðar. Óskaplega langar mann í svona lítið kríli þegar maður heldur á einu slíku. En ég var samt voða fegin að geta skilað honum þegar hann var búinn að gera númer 2 í bleyjuna;) Hann á eftir að verða alveg eins myndarlegur og restin af familíunni, það sést alveg um leið! Vissuð þið að það tekur "ekki nema" 45 mínútur að fara með strætó uppí Grafarvog frá Lækjartorgi, þvílík og önnur eins vegalengd!

Eftir heimsóknina fór ég svo og kláraði að kaupa jólagjafir. Jamm, búin að því þetta árið og það tók sko ekki langan tíma:) En ég valdi auðvitað besta veðrið til þess, storm og rigningu... alltaf svo sniðug hún ég sjálf!

Jæja, maaaaatuuuuuur:)

Lovísa skrifaði | 18:19
|

1.12.03  

Hmmmm! Ég er ekki eins vel gefin og ég hélt. Búin að læra stæ í allan dag en er nákvæmlega einskis vísari. Vill einhver hjálpa mér?

Lovísa skrifaði | 16:25
|

Skoða gestabókina
Skrifa í gestabókina
gamalt efni
tenglar